Hvarmabólga

Hvarmabólga er það þegar jaðrar augnlokanna bólgna. Nefnist á ensku blepharitis. Á þessu svæði eru auk róta augnháranna sérhæfðir fitukirtlar (Meiboms kirtlar) sem framleiða olíu sem myndar brák á tárin og tefur fyrir uppgufun þeirra. Einkenni þessa kvilla er gjarnan sviði og þreytukennd í augum, stundum óskýr sjón að morgni og jafnvel gröftur í augum.

Þetta er algengur kvilli og oft langvinnur. Það eru til nokkur afbrigði af hvarmabólgu; í sumum tilvikum er þetta eins og flösuexem í augnhárarótunum og þá sjást skófir eins og flasa, þær vilja svo sýkjast af bakteríum. Í öðrum tilfellum er bólgan mest í Meibomskirtlunum þannig að þegar ýtt er á hvarminn kemur út úr kirtlunum grútarkennt efni í miklum mæli í stað lítils olíudropa sem eðlilegt er.

Meðferðin við hvarmabólgu er í aðalatriðum þessi
– Taka inn lýsi – gamla húsráðið virðist hjálpa mörgum.

-Setja heita bakstra á hvarmana 1-2 sinnum á dag og strjúka þá létt til að þvo af húðflygsur og fitu. Jafnvel má nota við það útþynnt barnasjampó (fáeina dropa í bolla af volgu vatni).

– Sé grunur um sýkingu eru gefin sýklalyf í formi smyrslis eða dropa í 1-2 vikur en flestir þurfa að nota áfram heita bakstra til að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn taki sig upp.

Viljir þú fræðast ferkar um hvarmabólgu þá leitaðu á netinu að Blepharitis.