Sjóngallar

Sjóngallar er samheiti yfir galla í ljósbroti augans (refractive errors) og almennt er þá átt við nærsýni (myopia), fjarsýni (hypermetropia) og sjónskekkju (astigmatism). Augað vinnur svipað og myndavél. Framantil er linsukerfi sem samanstendur aðallega af glæru (hornhimnu) og augasteini. Myndin á svo að falla skörp á sjónhimnuna sem virkar eins og filma eða myndflaga í myndavél. Sjónhimnan nemur myndina og sendir hana til heilans gegnum sjóntaugina.
Framan af ævinni getum við stillt fókusinn til að sjá nálægt með því að gera augasteininn kúptari.

Nærsýni táknar það að linsukerfið er of sterkt miðað við lengd augans og leiðréttist hún með – (mínus) gleri sem er þynnst í miðjunni en þykkast í kantinn.
Maður með nærsýni sér vel nálægt sér (til lestrar) en illa langt frá sér (t.d. í bíó).

Fjarsýni táknar það að linsukerfið er of veikt miðað við lengd augans og leiðréttist með + (plús) gleri sem er þykkast í miðjunni og þynnst í kantinn eins og venjulegt stækkunargler.  Fjarsýnir sjá betur frá sér en nær en geta reyndar á yngri árum séð allvel nálægt sér en finna frekar fyrir þreytu.

Sjónskekkja táknar það að ljósbrotið er ekki sama í öllum plönum. T.d. gæti glerið -1,00 passað þegar mælt er í lárétta planinu en glerið -2,00 passað þegar mælt er í lóðrétta planinu. Mismunurinn er sjónskekkjuþátturinn, í þessu dæmi -1,00. Sjónskekkja stafar oftast af því að augað er ekki með kúlulaga yfirborði heldur miskúpt líkt og amerískur fótbolti sem er aflangur og því með miskúpt yfirborð. Sjónskekkja veldur óskýrri mynd og þreytu bæði við að horfa nálægt og langt frá sér.

Aldursfjarsýni (presbyopia) er svo nokkuð sem við fáum öll með aldrinum. Augasteinninn stirðnar með hverju árinu og algengt er að fólk sem áður sá vel fari að sjá ver til lestrar upp úr fertugu og þurfi þá lesgleraugu, venjulega + (plús) gleraugu.  Raunar alveg eins gleraugu og notuð eru við hina eiginlegu fjarsýni. Þessum tveim vandamálum er því skiljanlega oft ruglað saman af almenningi en annars vegar er um að ræða galla í byggingu augans (fjarsýni) og hins vegar stirðnun á augasteininum (aldursfjarsýni).