Hvað er augnlæknir?

Ekki gera allir sér góða grein fyrir því hvað augnlæknir er né í hverju starf hans sé fólgið. Til að fá viðurkenningu yfirvalda sem sérfræðingur í augnlækningum þarf viðkomandi að loknu stúdentsprófi fyrst að ljúka almennu læknanámi sem er 6-7 ára nám og fá svokallað almennt lækningaleyfi. Síðan þarf að leggja stund á sérnám í augnsjúkdómum í 4-6 ár. Það nám er fólgið í að vinna á augndeild undir handleiðslu reyndra augnlækna og smám saman starfa meira sjálfstætt eftir því sem færnin vex. Samhliða verklega náminu þarf að gangast undir bókleg námskeið og standast próf að þeim loknum. Dæmi um það er  EBOD-prófið fyrir evrópska augnlækna. The European Board of Ophthalmology Diploma. Algengt er að augnlæknar hafi náð 35 ára aldri eða meira þegar þeir hafa lokið náminu og geta farið að vinna með fullum afköstum.