Námsferðir

Læknar með sérfræðileyfi eiga rétt að fá greiddan kostnað, þ.m.t. eðlileg námskeiðsgjöld, við námsferðir til útlanda í 15 almanaksdaga árlega eftir nánari ákvörðun vinnuveitanda. Heimilt er að fara fleiri styttri ferðir eða 30 almanaksdaga ferð annað hvert ár enda leiði ekki af því aukinn kostnaður fyrir vinnuveitanda né lengri fjarvera læknis. Ónotaður réttur getur aldrei orðið meiri en 30 almanaksdagar. Það sem umfram er fellur niður. Semja má sérstaklega um styrki vegna þátttöku í stjórnarstarfi í norrænum sérfélögum.

Laun í námsferðum
Læknar með sérfræðileyfi skulu halda mánaðarlaunum auk viðbótarþátta meðan á námsferðum þessum stendur í samræmi við það starfshlutfall sem þeir eru ráðnir til.

Kostnaður við námsferðir
Læknar með sérfræðileyfi skulu fá greiddan ferða- og dvalarkostnað á námsferðum þessum skv. reglum þeim sem gilda um greiðslu ferðakostnaðar ríkisstarfsmanna á hverjum tíma. Nú fær viðkomandi laun, styrk eða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði og skal slíkt þá koma til frádráttar greiðslum þessum.
Kandidatar/læknar án sérfræðileyfis.
Kandidat/læknir án sérfræðileyfis sem ráðinn er til 1 árs eða lengur á sömu deild, skal hafa rétt til 7 daga námsferðar fyrir hverja 12 mánuði enda sé námsferðin tengd sérstökum rannsóknar- eða vísindaverkefnum sem hann vinnur að og tengist ennfremur starfssviði og verkefnum viðkomandi deildar. Leita skal umsagnar yfirlæknis viðkomandi deildar áður en leyfi til slíkrar ferðar er veitt.
Hafi læknir með sérfræðileyfi unnið a.m.k. 2 ár í stöðu læknis án sérfræðileyfis, á hann sama rétt að þessu leyti og læknir með sérfræðileyfi.

Upphæðir
Námskeiðsgjöld á ári: 550 SDR
Flugfargjöld á ári: 150.000 krónur