Sólmyrkvi 20.03.2015

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum verður stór sólmyrkvi að morgni 20. mars 2015. Ef veður leyfir mun myrkvinn sjást mjög vel hér á landi sem stór deildarmyrkvi, næstum því almyrkvi því allt að 97-98% af sólinn myrkvast þegar tunglið gengur á milli sólu og jarðar.

Sólmyrkar eru mikið sjónarspil náttúrunnar sem gaman er að horfa á.
Augnlæknafélagið vill hér með minna á að mjög hættulegt er að horfa á sólina án fullnægjandi búnaðar og er hægt að stórskaða í sér sjónina með því á nokkrum sekúndum.
Allir kannast við að sjá blett í sjóninni eftir að tekin hefur verið af þeim mynd með flassi. Sé óvarlega horft í sólina kemur slíkur blettur en bara stærri, ofast nálægt eða alveg í miðjunni og hverfur kannski aldrei aftur.  Eftir hvern sólmyrkva hafa augnlæknar séð slík tilfelli og er það auðvitað hörmulegt að skaða sjónina fyrir lífstíð fyrir vanþekkingu eða óvarkárni.
Má hér benda á góðan pistil Guðrúnar Guðmundsdóttur augnlæknis sem birtist í héraðsblaðinu Skessuhorni.

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness, Stjörnufræðivefurinn og Hótel Rangá hafa á dögunum gefið öllum grunnskólanemendum og kennurum þeirra sérstök sólmyrkvagleraugu og er það lofsvert framtak.  Einnig hafa þeir boðið öðrum gleraugu til kaups og kann að vera að þau séu enn fáanleg.

Við augnlæknar hvetjum alla sem hafa áhuga á að fylgjast með sólmyrkvanum að verða sér út um sólmyrkvagleraugu.   Hafi menn ekki tök á að eignast slík gleraugu er gömul aðferð að sóta glerplötu með því að halda henni rétt yfir kertaloga þar til nægilega stórt svæði er orðið alsvart. Þetta er skárra en að hafa enga vörn. Það þarf þó að gæta þess að hvergi skíni í gegnum sótlagið t.d. ef kæmi rispa í það.