Sjónverndarvika

Nú er komið að lokum sjónverndarvikunnar sem hófst 9. október á alþjóðlega sjónverndardeginum og  lýkur 15. október sem er dagur hvíta stafsins.

Þann 10. október var haldin ráðstefna með yfirskriftinni Barist gegn og lifað með blindu og sjónskerðingu  á vegum Blindrafélagsins  með stuðningi Blindravinafélags Íslands og í samstarfi við Augnlæknafélag Íslands, Lions á Íslandi og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.  Þar var fluttur fjöldi góðra erinda, blindir og sjónskertir lýstu því hvernig það væri að tapa sjóninni og þurfa að læra að lifa með þeirri fötlun og var það mjög athyglisvert að hlusta á. Sagt var frá starfsemi Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar og síðan voru fluttir nokkrir fyrirlestrar íslenskra og erlendra vísindamanna. Var ráðstefnan í alla staði mjög vel heppnuð.

Á alþjóðlegum sjónverndardegi Lions fór svo fram formleg afhending á 2 nýjum tækjum sem Lions International hefur gefið Augndeild Landspítalans. Er þar um að ræða sjónsviðsmæli af fullkomnustu gerð svo og tæki til raflífeðlisfræðilegra rannsókna á augum ungra barna sem óttast er að séu haldin einhverjum augnsjúkdómi.  Mikill fengur er í þessum tækjum fyrir Augndeildina.

Síðdegis þennan sama dag var svo sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur á vegum Lions og í samvinnnu við Augnlæknafélag Íslands, Blindrafélagið og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.  Mörg fyrirtæki sem starfa á þessu sviði kynntu þar sínar vörur og þjónustu.  Sýningin var öllum opin og aðgangur ókeypis og var hún mjög vel sótt.