Að fara til augnlæknis

Heldurðu að þú þurfir til augnlæknis ? Hvers vegna leitar fólk til augnlæknis ?  Ástæðurnar geta auðvitað verið margvíslegar. Nokkur dæmi: Einhvers konar truflun á sjón. Sviði, þurrkur, kláði, tárarennsli, gröftur. Höfuðverkir (því þeir geta stundum stafað af duldum sjóngöllum og einnig geta sumir sjúkdómar í höfði komið í ljós við augnskoðun. Eftirlit vegna sjúkdóms t.d. gláku, augnbotnahrörnunar, skýs á auga, sykursýki o.fl. Áður en þú ferð til augnlæknis er gott að vera búinn að íhuga hvernig þú ætlar að lýsa vandamálinu þínu. Mundu að sjúkrasagan þín er einn mikilvægasti hluti viðtalsins við lækninn.

Læknanemum er sagt að muna þetta; “Hlustaðu á sjúklinginn, hann er að segja þér sjúkdómsgreinginguna” Málið er að vísu ekki alveg svona einfalt en alla vega gefur nákvæm sjúkrasaga mikilvægar vísbendingar um hvað gæti verið á seyði og þá verður skoðunin sjálf markvissari. Teldu upp þau einkenni sem þú telur að geti skipt máli og líka hvað þú ert að hugsa t.d. hvort þetta geti verið gláka af því mamma þín sé með gláku. Íhugaðu líka ýmis atriði sem læknirinn gæti spurt um:

1)  Hefur sjónin breyst og þá hvernig. Hefur þú notað gleraugu ? Ef þú átt gleraugu getur verið gott að taka þau með, alla vega ef málið snýst um breytingu á sjón

2)  Tengjast einkennin (hver sem þau eru) einhverju öðru ?  Verri að morgni, að kvöldi, úti, inni. verri eftir að lesa eða horfa á sjónvarp, tengsl við umhverfi eins og gróður.

3) Almenn heilsa, lyf sem þú tekur. Ótrúlega mörg lyf hafa áhrif á augun

4) Augnsjúkdómar í ættinni, þá sérstaklega gláka.