Augnskekkja

Við höfum sex vöðva til að hreyfa hvort auga. Í eðlilegu ástandi eru boðin til vöðvanna mjög vel samhæfð þannig að augun hreyfast samsíða í takt í allar áttir nema þegar horft er á hlut nálægt sér þá vísa sjónöxlarnir saman þannig að þeir mætast í þeirri fjarlægð sem hluturinn er. Þegar augun vinna saman á réttan hátt fær heilinn þrívíða mynd og meiri myndgæði almennt heldur en þegar bara annað augað er notað í einu. Augnskekkja eða skjálgi (enska: strabismus) er fólgin í því að annað augað hefur tilhneigingu til að skekkjast miðað við hitt eða er jafnvel stöðugt skakkt. Skekkjan getur verið ýmist verið inn á við ( convergent ), út á við ( divergent ) eða hæðarskekkja ( vertical ). Ýmist getur það verið alltaf sama augað sem skekkist eða að þau séu skökk til skiptis. Þó er það svo að annað hvort augað horfir alltaf beint á hverju augnabliki þó þau kannski skiptist á. Skekkjan getur verið meðfædd og sést um leið og barnið fer að beita augunum. Slík skekkja er oftast inn á við og gjarnan mjög áberandi. Ef hún er enn til staðar og stöðug við 6 mánaða aldur er best að gera aðgerð á augnvöðvunum strax til að leiðrétta ójafnvægið.

Stundum kemur skekkjan fram mun síðar eða á öðru eða þriðja ári. Þá er orsökin oft sjónlagsgallar svo sem mikil fjarsýni eða mikill munur á sjónlaginu í augunum þannig að þau geta illa unnið saman því myndin er aldrei í fókus í báðum samtímis. Fái barnið gleraugu við hæfi getur skekkjan lagast við það. Oft er þó um blönduð form að ræða, bæði sjónlagsgalla og annmarka á vöðvajafnvægi. Þá lagast stundum skekkjan að hluta með gleraugum en svo þarf einnig aðgerð. Einnig getur augnskekkja verið hluti af stærra vandamáli svo sem heilalömun (cerebral palsy)

Letingi

Það gildir bæði um misjafnt sjónlag og skekkju á augum að mikil hætta er á að sjónin þroskist aðeins á öðru auganu en hitt verði vanþroska, stundum kallað letingi (amblyopia). Slík sjóndepra vegna notkunarleysis getur verið mjög alvarleg þannig að viðkomandi sjái bara grófar hreyfingar með auganu en algengt er að sjónin sé ekki nema 10-30% af fullri skerpu. Það er afar mikilvægt að greina slíkt fljótt og taka það föstum tökum með réttum gleraugum og leppmeðferð á góða augað til að barnið fari að nota vanþroska augað. Sé barnið 1-3 ára getur slík meðferð gengið fljótt (fáeinar vikur) en sé það orðið 4-5 ára tekur hún mun lengri tíma, iðulega marga mánuð. Helst er reynt að ljúka leppmeðferð áður en farið er í aðgerð vegna skekkjunnar því þá er árangur aðgerðarinnar betri, þ.e. betri líkur á að augun fari að vinna rétt saman eða því sem næst. Langi þig að lesa meira um augnskekkjur skaltu leita á netinu að skáletruðu orðunum, t.d. “convergent strabismus” o.s. frv