Aldursbundin augnbotnahrörnun

Algengast orsök sjónskerðingar á vesturlöndum er aldursbundin hrörnun í augnbotnum ( age-related macular degeneration, skammstafað AMD eða ARMD ).  Hún veldur meira en helmingi sjónskerðingar á Íslandi.  Eins og nafnið bendir til eykst tíðni hennar með aldrinum en aðrir áhættuþættir eru t.d. erfðir, reykingar, æðakölkun og háþrýstingur. Sjúkdómurinn er nokkru algengari hjá konum en körlum.

Hrörnunin byrjar oftast sem hægfara rýrnun í augnbotninum sem veldur smám saman minnkandi sjónskerpu sem einkum kemur fram sem vaxandi erfiðleikar að lesa smátt letur. Á síðari stigum hrörnunarinnar getur komið fram bjögun, þ.e. aflögun á myndinni þannig að bein lína verið hlykkjótt til dæmis. Þetta er verra form og getur leitt til hratt vaxandi sjónskerðingar. Tapast þá skarpa sjónin en hliðarsjónin helst þannig að sjúklingurinn sér til að rata um þar sem hann þekkir sig þó hann geti ekki lesið.

Ef þú finnur fyrir bjögun (brenglun) í sjóninni þá er rétt að leita strax til augnlæknis því í sumum tilfellum er hægt með viðeigandi meðferð að hægja á eða stöðva framgang sjúkdómsins.

Á vefsíður Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar  fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga er að finna meiri fræðslu um þennan sjúkdóm:

1) Fræðandi grein um aldursbundna augnbotnahrörnun

2) Bæklingur um aldursbundna augnbotnahrörnun