Ský á augasteini

Augasteinninn (lens) er hluti af linsukerfi augans. Í ungu fólki er hann nánast kristalstær en hann eldist eins og aðrir hlutar líkamans. Þá verður hann gjarnan gulari, einnig fara að koma í hann meira eða minna afmarkaðir blettir eða samfelldur grámi. Það kallast ský á augasteini. Um sjötugt eru flestir komnir með einhverja skýjun í augasteinana en hvort hún háir viðkomandi ræðst af því hvar hún er staðsett. Ský á miðjunni truflar þannig miklu meira en sé það staðsett út við kant á augasteininum. Áhættuþættir fyrir skýmyndun eru m.a. geislun af ýmsu tagi (útfjólublá, innrauð og röntgen), einnig inntaka steralyfja í stórum skömmtum eða til langframa. Einstaklingi með ský á augasteini finnst vera almenn móða á myndinni, að vissu leyti líkt og þyrfti að pússa gleraugun.

Meðferð

Stundum er gagn í að fá sterkari eða veikari gleraugu en að lokum kemur oft að því að nauðsynlegt er að skipta um augastein. Þá er í stuttri aðgerð hinn skýjaði augasteinn mulinn og soginn út en gerviaugasteinn úr plasti settur inn í augað í staðinn. Slík aðgerð fer að jafnaði fram án svæfingar, aðeins þarf að deyfa augað með dropum og aðgerðin tekur um 20 mínútur. Eftir aðgerðina þarf svo að bera í augun bólgueyðandi dropa og um 3 vikum eftir aðgerð er komið að því að endurskoða gleraugun en oftast þarf að breyta þeim. Árangurinn af aðgerðinni ræðst mest af ástandi augnbotnins, sé hann í góðu lagi getur sjónin aftur orðið eins og hún var á yngri árum en sé komin hrörnun í hann verður sjónskerpan að sama skapi minni en almennt er samt einhver árnangur af aðgerðinni. Á hverju ári eru framkvæmdar á þriðja þúsund augasteinsaðgerðir hérlendis.

Margir halda að þeir séu komnir með ský þegar þeir sjá eins og flugur eða tjásur á sveimi þegar bakgrunnurinn er hvítur en svo er ekki. Þá er um að ræða grugg á hreyfingu í glerhlaupi augans (vitreous body) sem ofast er hættulaust en getur þó verið merki um sjúkdóm ef það kemur skyndilega.